Title | : | Arafat: In the Eyes of the Beholder |
Author | : | |
Rating | : | |
ISBN | : | 155972403X |
ISBN-10 | : | 9781559724036 |
Language | : | English |
Format Type | : | Hardcover |
Number of Pages | : | 534 |
Publication | : | First published January 1, 1990 |
Arafat: In the Eyes of the Beholder Reviews
-
Arafat; Kempan með kafíuna - bókadómur
Kostir bókarinnar Arafat: Kempan með kafíuna, eftir hjónin og blaðamennina John og Janet Wallach felast í þeim mikla fróðleik og því margþætta sjónarhorni sem í henni birtast. Rakin er saga Arafats, PLO og frelsisbaráttu Palestínumanna, en einnig er kafað í sögu Mið-Austurlanda út frá þeim aðilum sem Arafat hefur átt mest afskipti af, hvort heldur sem það hefur verið til friðar eða ófriðar. Þannig eru sjónarsviðin Jórdanía, Líbanon og Sýrland, Egyptaland, Ísrael og Bandaríkin. Arafat og átökin eru skoðuð í ljósi alls þessa og fylgt upp að Oslóarsamkomulaginu. Höfundar leituðust við að draga upp sem víðtækasta mynd af Arafat og tóku viðtal við aragrúa fólks í því skyni. Rætt var við vini og ættingja, leiðtoga stjórnmálasamtaka, stuðningsmenn, bandamenn og andstæðinga hvaðanæfa að auk þess að hjónin tóku fjöldamörg viðtöl við Arafat sjálfan. Sú mikla vinna og metnaður eru sannarlega virðingarverð.
Wallach-hjónin, bandarískir gyðingar og blaðamenn, draga ekki dul á skoðanir sínar en reyna þó að sýna sanngirni og leyfa sem víðustu sjónarhorni að birtast. Oftast sýnist mér þeim takast það bærilega. Eins og þau benda á taka þau tillit til „ótvíræðs réttar gyðinga til Ísraelsríkis, sem heimaríkis síns“ og segjast hafa orðið fyrir vonbrigðum með að Arafat „skuli enn ekki geta sýnt neinn skilning á því að Zíonisminn er réttmæt þjóðernishreyfing gyðinga“. Þessi fullyrðing er enda umdeild, en eins má minna á að ýmsan skilning má leggja í hvað felst í zíonisma og að afbrigði hans eru mörg. Höfundarnir virða í senn sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og tilvist Ísraels og telja jafnframt friðarvilja Arafats einlægan en öðru máli gegni hins vegar um Netanyahu, sem hafi alltaf staðið gegn því að sjálfstæðu lífvænlegu Palestínuríki verði komið á fót.
Gallar bókarinnar liggja í því að hún virðist ætla sér of mikið og að samhliða því verður skipulagi hennar ábótavant. Í stað frásagnar í sæmilegri tímaröð er vaðið fram og aftur í tíma en tengt út frá ákveðnum þemum, en þetta getur valdið því að erfiðara verður að fylgja bókinni eftir. Tímalína er raunar aftast, en þar sést glöggt hversu bókin veður annars fram og aftur í frásögn. Tímalínan er gagnleg í sjálfu sér og raunar fyrirtaks yfirlit en þó er tvísýnt hvort það bætir fyrir uppsetninguna, sér í lagi þar sem henni er einnig ætlað að koma í staðinn fyrir atriðisorðaskrá, sem ég saknaði oft við lesturinn.
Ritstílinn hefði sömuleiðis mátt vanda betur, allt í allt er sæmilega skrifuð og fróðleg, en líður þó fyrir klisjukennt orðalag og að höfundar eiga það til að detta í endurtekningar og klifanir eða að tapa sér í smáatriðum, en afar misjafnt hversu áhugaverð þau eru eða hvaða máli þau virðast skipta. Þannig sé ég t.d. ekki að frásögnin sé bætt af því að maður viti í þaula hvað Arafat fékk sér að borða eða í hvernig íþróttabuxum hann var þann daginn eða hinn. Segja má þó að þetta batni eftir því sem líður á lesturinn. Stytta hefði mátt bókina töluvert og allt í allt hefði hún haft gott af góðri ritrýni.
Þá bætir ekki úr skák að þýðingin hefði líka vægast sagt mátt þola meiri yfirlegu. Fyrir utan algengar stafsetningavillur og málfræðivillur er þýðingin einfaldlega víða afar knosuð og mikið um beinþýðingar sem skila sér illa á íslensku. Ég hef ekki haft aðgang að ensku útgáfunni, en vera má að hún sé læsilegri.
Ég er ekki viss um að ég myndi mæla með bókinni fyrir þá sem eru lítt kunnugir ástandinu eða deilunni. Sumt sem í henni kemur fram er ekki eða síður að finna annars staðar, og það er ágætt að hafa alla þá þekkingu saman komna í bókinni, en annað má fremur finna í öðrum bókum og oft betur sagt frá, þó að það kalli ef til vill á að maður lesi fleiri bækur eða lengri. Þar má geta þess að albesta en jafnframt lengsta bókin sem ég hef lesið um ástandið er A History of the Israeli-Palestinian Conflict, en hún „hlutlæg án skeytingarleysis“, eins og höfundurinn orðar það. Einnig þyrfti lesandi að leita annað vegna atburðanna eftir Oslóarsamkomulagið, sem sýnir að bókin er komin til ára sinna, útgefin 1997. Við lesturinn fann ég sjálfur einmitt sterklega fyrir því hversu eftirmálar samkomulagsins urðu á annan veg en margir bundu vonir við. Eins fannst mér yfirleitt skorta á að lesandi fengi tilfinningu fyrir því í bókinni hvers konar líf það er að búa undir hernámi, ef hann þekkti ekki til þess fyrir og eins hefði mátt gefa betri tilfinningu fyrir lífinu í flóttamannabúðunum.
Bókin er því allt í allt fróðleg en síður en svo gallalaus viðbót fyrir lesendur sem hafa þegar einhverja bakgrunnsþekkingu og áhuga á ástandinu, átökunum og sögu mið-Austurlanda. Ég gef henni þrjár stjörnur af fimm.